Nafnlaust komment fær Arnar til að blogga á ný

Hæ,

Ég hef ekki bloggað neitt að ráði núna í langan tíma. Ég ætla að gera smá í dag. Svo kannski fjölgar bloggunum þegar fram líða stundir.

Síðan 30. apríl höfum við Alexander búið einir hér í slottinu í Birkelunddalen. Sólrún, Dísa og Matthías fór heim fyrir sumarið. Sólrún fékk vinnu heima og Dísa fékk að fara í sveit. Alexander fær svo líka að fara í sveit til Ásrúnar frænku þegar hann kemur til Íslands.

Tímann sem við höfum verið einir höfum við notið og ég er ekki frá því að við báðir höfum þurft á þessu að halda. Alexander líður líka betur í skólanum. Leið á tímabili ekki nógu vel, en það er allt annað að sjá hann í dag. Hann er glaður og líður greinilega vel. Ég talaði við Lars kennara hans núna á fimmtudag og hann talaði einmitt um þetta.

Við í hópnum mínum skiluðum hópverkefninu okkar þ. 20. maí síðastliðinn og höfum verið í próflestri síðan. Reyndar tókum við viku frí fyrst. Ég skal nú viðurkenna það að ég hef ekki verið á 100% afli, en er núna kominn í ágætisgang og er bara nokkuð bjartsýnn á þetta. Er kannski hræddastur við seinasta prófið sem er kerfishönnun og gagnagrunnar. Ekki eitthvað sem maður pikkar upp á einum degi.

Við Alexander fórum ásamt góðri vinkonu okkar, nágrannanum Dorte, í bíltúr til Kerteminde og svo nyrsta tanga Fjóns. Í Kerteminde fórum við á Johannes Larsen safnið og sáum það alveg dýrðleg málverk. Reyndar voru inn á milli nokkur sem heilluðu ekki en þannig er það nú bara. Þau málverk sem stóðu upp úr fyrir mig var smá verk sem Larsen blessaður málaði í Feneyjum. Ofsalega falleg mynd. Svo var verk þarna eftir einn sem ég hreinlega man ekki nafnið á en er málað á þessu ári og sýnir vetur á Fjóni. Ég veit að málarinn er fæddur 1961, en nafnið er alveg stolið úr mér.
Mörg verkanna eru máluð út frá upplifun listamannanna af náttúrufegurðinni á nyrsta tanga fjóns, Fyens hoved. Við keyrðum þangað og ég get vel skilið að þeir hafi fengið þörfina til að mála. Þarna var ofsalega fallegt og við vorum heppin með veður. Alexander naut sín til hins ýtrasta við að henda grjóti í sjóinn. Dorte talaði um að það þyrfti að teikna ströndina upp á nýtt af því að hann var svo duglegur að kasta.

Við röltum einnig á ströndinni í Kerteminde og skoðuðum höfnina. Það var líka virkilega gaman og enn og aftur naut Alexander sín til fullnustu. Ekki skemmdi að hann fékk svo að kaupa bland í poka.
Ein gatan sem við röltum eftir hét svo Islandsgade. Heimþráin blossaði upp, en það eru ekki nema 11 dagar í að við fljúgum heim á klakann. Ég hlakka verulega til og hef eiginlega verið að bíða síðan í apríllok.

Við komum svo heim úr bíltúrnum um fimmleytið og ég bruggaði kaffi handa okkur Dorte og hún dreif sig svo í garðrækt. Hún er mikill garðræktandi og er með lítið hús og garð ekki langt frá. Kallast hérna kolonihave (hugsanlega vitlaust skrifað) og er vinsælt fyrirbæri. Hægt að kaupa svona hús og garð fyrir svona 150-200 þús íslenskar.

Alexander og ég grilluðum svo pulsur/pylsur og nú er hann að horfa á Bruce Almighty með Jim Carrey og ég er að fara í startholurnar að læra. Var reyndar byrjaður en fékk nafnlaust komment á bloggið, sem hvatti mig til að hripa smá.

Stutt í Ísland og enn styttra í prófin.

Heyrumst og munið að horfa a.m.k einu sinni í spegilinn á hverjum degi og segið við sjálf ykkur "Þú ert ágæt(ur)" Passið kynið annars getur farið illa ;)

Arnar Thor

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Hmmmmm, ég ætlaði nú að setja nafnið mitt undir, en þið vitið hvernig þetta er maður er alltaf að flýta sér.
KV MUNDA !!!!

Vinsælar færslur